Innlent

Nefndir kanna aðgerðir í fiskeldismálum

MYND/GVA

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur skipað tvær nýjar nefndir um fiskeldismál. Önnur á að kanna aðgerðir til að efla þorskeldi hér á landi og sérstaklega möguleika á byggingu og starfrækslu seiðaeldisstöðvar sem þjónað gæti allri matfiskframleiðslu í landinu.

Hin nefndin á að kanna stöðu kræklingaræktar hér á landi og möguleika hennar. Á nefndin meðal annars að koma með tillögur um aðgerðir sem hægt er að grípa til hjá hinu opinbera til að treysta rekstrarforsendur greinarinnar eins og segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Í fyrrnefndu nefndinni eiga sæti Kristinn Hugason, búfjárkynbóta- og stjórnsýslufræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu, sem jafnframt er formaður, Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar og Ólafur Halldórsson, fiskifræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Fiskeldis Eyjafjarðar.

Í síðarnefndu nefndinni eiga sæti Haukur Oddsson verkfræðingur, framkvæmdastjóri Borgunar, sem einnig er formaður, Ásta Ásmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Matís, Guðrún Þórarinsdóttir, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, Jón Baldvinsson frá Skelrækt - samtökum kræklingaræktenda og Kristinn Hugason, stjórnsýslufræðingur hjá sjávarútvegsráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×