Fótbolti

Serbar ráku landsliðsþjálfarann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Javier Clemente við ráðningu sína í fyrra.
Javier Clemente við ráðningu sína í fyrra. Nordic Photos / AFP

Serbneska knattspyrnusambandið hefur vikið Javier Clemente landsliðsþjálfara úr starfi en landsliðinu misstókst að komast í úrslitakeppni EM 2008.

Zvezdan Terzic, forseti sambandsins, staðfesti þetta í dag. „Mælistikan á árangur er ávallt úrslit leikja og höfum við tekið þá ákvörðun að framlengja ekki samning Clemente sem rennur út um áramótin."

„Clemente sagði sjálfur að hann vildi ekki halda áfram nema að hann hefði óumdeildan stuðning sambandsins, stuðningsmannanna og fjölmiðlanna. Hann nýtur þess ekki en þeir voru ekki margir sem vildu sjá hann fara," sagði Terzic.

„Verkefni hans um að koma liðinu á EM með svo ungt lið var óraunhæft af okkar hálfu," bætti hann við.

Serbar voru í erfiðum riðli í undankeppni EM og lentu í þriðja sæti A-riðils á eftir Póllandi og Portúgal. Í undankeppni HM 2010 er liðið með Frökkum og Rúmenum í riðli.

Clemente var áður landsliðsþjálfari í heimalandi sínu, Spáni. Hann hefur einnig stýrt fjölda félagsliða, nú síðasta Athletic Bilbao.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×