Fótbolti

Átta létust á knattspyrnuleik í Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fonte Nova-leikvangurinn í Salvador, Brasilíu.
Fonte Nova-leikvangurinn í Salvador, Brasilíu.

Að minnsta kosti átta manns létust á knattspyrnuleik í norðausturhluta Brasilíu um helgina þegar gólf féll saman í stúku á Fonte Nova-leikvanginum í Salvador.

Heimamenn voru að fagna því að liðið hefði unnið sér sæti í B-deild Brasilíu þegar gólfið hrundi, þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Þeir sem duttu í gegnum gatið féllu 40 metra til jarðar.

Staðan í leiknum var markalaus þegar þetta gerðist og jafntefli hefði tryggt heimamönnum í Bahia sæti í næstefstu deild þar í landi.

Um 60 þúsund manns voru á leiknum og höfðu margir þeirra ekki vitneskju um hvað hefði gerst fyrr en að leik loknum.

Salvador er ein þeirra borga sem kemur til greina hjá brasilíska knattspyrnusambandinu sem vettvangur heimsmeistarakeppninnar í fótbolta sem fer þar fram árið 2014.

Margir leikvanganna í Brasilíu eru komnir til ára sinna og þurfa á viðgerðum að halda. Ef Salvador verður fyrir valinu verður nýr leikvangur byggður í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×