Fótbolti

Verðum ekki á botninum ef við spilum vel

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari Mynd/Martin Sylvest

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari er sáttur við mótherja íslenska landsliðsins í riðlakeppni HM. Hann á ekki von á að liðið vermi botnsætið í riðlinum ef því tekst að komast vel frá verkefninu. 

Íslenska landsliðið lenti sem kunnugt er í fimm liða riðli og er því lægst skrifaðasta liðið í riðlinum. Mótherjarnir eru vissulega sterkir, en Ólafur var nokkuð bjartsýnn þegar Vísir náði tali af honum í Suður-Afríku í dag. 

"Mér líst ljómandi vel á mótherja okkur í riðlinum þó við hefðum viljað vera í sex liða riðli. Það er erfitt að segja til um það fyrirfram hverjir möguleikar okkar eru í þessum riðli. Hollendingar eru stórþjóð í fótbolta og mjög góðir knattspyrnumenn," sagði Ólafur um stórliðið í riðlinum - Hollendinga.

Honum líst betur á Norðmenn og Skota. "Norðmenn og Skotar hafa verið dálítið upp og niður en hafa verið að standa sig vel núna undanfarið og bæði þessi lið voru nálægt því að komast á EM. Ég tel okkur eiga ágæta möguleika gegn þessum tveimur liðum og vil meina að það henti okkur ágætlega að spila gegn þeim."

"Það hefur nú oft verið þannig þegar við erum að spila gegn þessum þjóðum frá Austur-Evrópu að við höfum verið í hálfgerðum eltingaleik allan tímann en Skotar og Norðmenn spila svona kraftabolta eins og við spilum oft og eru tvímannalaust fyrirsjáanlegir andstæðingar en margir þeirra sem við höfum mætt að undanförnu."

En getur íslenska landsliðið virkilega staðið uppi í hárinu á þessum mótherjum? "Við erum auðvitað í neðsta styrkleikaflokki af þessum liðum af því við erum í fimm liða riðli, en ég met það þannig að við eigum möguleika á móti þessum þjóðum. Ef þú vinnur þína vinnu og allir leggjast á eitt eru okkar möguleikar fínir á því að ná fínum úrslitum í þessu - ég hræðist það ekki.

Við spurðum Ólaf að lokum hvort hann gæti lofað að íslenska liðið yrði ekki í neðsta sæti í riðlinum að lokinni undankeppninni.

"Ég held að sé nú best að lofa sem minnstu í þessu. Ég segi bara eins og ég hef sagt áður. Ég vona að allir komist sem best frá þessu verkefni og verði sáttir við frammistöðu sína inni á vellinum - það er það sem við leggjum aðaláhersluna á. Ef menn verða sáttir við sína frammistöðu í leikjunum, held ég að við verðum ekki neðstir í þessum riðli," sagði landsliðsþjálfarinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×