Fótbolti

Ísland kostaði Norður-Íra sæti á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn íslenska landsliðsins fagna marki gegn Norður-Írum í Belfast.
Leikmenn íslenska landsliðsins fagna marki gegn Norður-Írum í Belfast. Nordic Photos / AFP

Sex af átta stigum Íslands í undankeppni EM komu eftir tvo sigra á Norður-Írlandi. Þessi sex stig hefðu dugað Norður-Írum til að komast í úrslitakeppni EM 2008.

Ísland vann Norður-Írland í Belfast í september í fyrra í fyrstu umferð undankeppninnar. Norður-Írar voru handvissir um sigur í leiknum og vanmátu einfaldlega íslenska liðið.

Svo vann liðið fimm af næstu sex leikjum sínum áður en septembermánuður á þessu ári rann upp. Þann 12. september síðastliðinn vann Ísland lið Norður-Írlands öðru sinni, í þetta sinn á Laugardalsvellinum, 2-1.

Norður-Írland fékk 20 stig í F-riðli, sex stigum á eftir Svíum sem komust áfram í lokakeppni EM. Ef Norður-Írland hefði einnig fengið 26 stig hefði liðið hirt annað sætið og farseðilinn til Austurríkis og Sviss á næsta ári, þrátt fyrir að vera með lakari markatölu en Svíþjóð.

Þegar lið eru jöfn að stigum ræður árangur í innbyrðisviðureignum. Þar höfðu Norður-Írar betur en þeir unnu Svía á heimavelli, 2-1, og gerðu svo jafntefli í Svíþjóð, 1-1.

Af þessu má dæma að Norður-Írar stóðu vel í stærri þjóðunum í riðlinum en féllu svo á prófinu þegar kom að íslenska liðinu sem náði langtum verri árangri í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×