Fótbolti

Þjóðerni skiptir ekki máli

NordicPhotos/GettyImages

Brian Barwick, yfirmaður enska knattspyrnusambandsins, segir þjóðerni ekki skipta máli þegar kemur að því að finna eftirmann Steve McClaren hjá enska landsliðinu sem rekinn var í morgun ásamt aðstoðarmanni sínum Terry Venables.

"Ég á ekki von á því að það skipti máli hvort næsti þjálfari er enskur eða ekki," sagði Barwick á fréttamannafundi fyrir hádegið. Hann bað ensku þjóðina afsökunar á að koma liðinu ekki á EM.

"Ég vil persónulega biðja stuðningsmennina afsökunar. Mér stendur ekki á sama um þetta og þetta hefur aldrei verið hvert annað starf fyrir mér. Ég fer fyrir enska knattspyrnusambandinu af því mér er annt um fótbolta. Við höfum náð góðum árangri hjá sambandinu á síðasta ári en það sem fólkið vill er að landsliðið nái árangri og við erum auðvitað dæmdir eftir því."

Barwick segir að ákvörðunin að reka McClaren hafi verið einróma ákvörðun hjá stjórn sambandsins. "Þetta var erfið ákvörðun, en hún var tekin einróma og Steve tók þessu eins og fullorðinn maður. Hann veit að krafan var sú að við færum á EM. Ég vil ekki ræða einstaka samningsatriði en við sjáum ekki eftir því að hafa ráðið McClaren," sagði Barwick og bætti við að enska knattspyrnusambandið yrði af um 5 milljónum punda í tekjur við að komast ekki á EM næsta sumar.

Hann segir sambandið ætla að vanda sig við að finna eftirmann McClaren.

"Við verðum að læra af þessu öllu saman og nú munum við standa öðru vísi að því að ráðningu landsliðsþjálfara en við gerðum síðast," sagði Barwick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×