Fótbolti

Ólafur: Margt jákvætt við leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari íslenska liðsins, og Bjarni Sigurðsson markmannsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari íslenska liðsins, og Bjarni Sigurðsson markmannsþjálfari. Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagði í viðtali við Sýn eftir leik Danmerkur og Íslands að það væri margt jákvætt við leik íslenska liðsins.

„Það er aldrei gott að tapa og er ég ekki sáttur við það," sagði Ólafur. „En án þess að koma með allt of stórar afsakanir fannst mér margt jákvætt í leiknum. Hugarfarið hjá strákunum var til að mynda mjög gott. En við fengum á okkur aulamörk og var markið sem við fengum undir lok fyrri hálfleiks sérstaklega fúlt."

Hann segir að lagt hefði verið upp með að leyfa Dönum að halda boltanum aftarlega á vellinum en það sé þó margt sem þurfi að laga í leik íslenska liðsins.

„Það virðist oft vera þannig með okkur að við spörkum boltanum eitthvað í stað þess að koma honum á ákveðna menn. En ég vil ekki taka einhverja leikmenn sérstaklega út."

Ólafur var þó ekki að örvænta mikið þrátt fyrir úrslitin. „Þetta er bara einn leikur. Svo tekur næsti leikur við. Við höfum verið að reyna að laga það sem þarf að laga og er ég ekki svartsýnn á framhaldið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×