Fótbolti

McClaren í sjöunda himni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve McClaren var heldur niðurlútur eftir leik Rússa og Englendinga í Moskvu en hann hefur tekið gleði sína á ný.
Steve McClaren var heldur niðurlútur eftir leik Rússa og Englendinga í Moskvu en hann hefur tekið gleði sína á ný. Nordic Photos / AFP
Steve McClaren er vitanlega hæstánægður með úrslit í leik Ísraels og Rússlands. Sigur Ísraela þýðir að England á enn möguleika á að komast í úrslitakeppni EM 2008.

Sigurinn þýðir einnig að Englendingum dugir jafntefli gegn Króatíu á miðvikudaginn en síðarnefnda þjóðin komst áfram á EM í kvöld, þrátt fyrir tap fyrir Makedóníu, þökk sé sigri Ísraela.

„Þvílíkt kvöld,“ sagði McClaren. „Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur öll. Ég vil hrósa Ísraelum sérstaklega fyrir að ganga hreint og beint til verka í kvöld. Þeir sýndu hversu stoltir þeir eru af þjóð sinni.“

McClaren lét hafa eftir sér í enskum fjölmiðlum í vikunni að hann hefði alltaf trú á því að England kæmist áfram á EM og að úrslitin myndu ekki ráðast endanlega fyrr en á miðvikudaginn kemur, þegar England mætir Króatíu.

„Ég missti aldrei trúna á þessu og sem betur fer fór það eins og ég sagði. Ég horfði á leikinn á hótelinu mínu með fjölskyldu minni og þjálfararliði. Fögnuðurinn var mikill og góður.“

Hann segir þó að nú verði menn að koma sér á jörðina og einbeita sér að verkefninu mikilvæga á miðvikudaginn.

„Nú er þetta aftur undir okkur komið og þurfum við svo sannarlega á því að halda að þjóðin öll styðji við bakið á okkur. Þetta verður erfiður leikur en ég er viss um að við náum þeim úrslitum sem við þurfum til að komast áfram í úrslitakeppnina í Austurríki og Sviss.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×