Fótbolti

Finnar sluppu með skrekkinn gegn Aserum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mikael Forssel skoraði þýðingarmikið mark fyrir Finna gegn Aserum í dag.
Mikael Forssel skoraði þýðingarmikið mark fyrir Finna gegn Aserum í dag. Nordic Photos / AFP

Finnar skoruðu tvö mörk á síðasta korterinu gegn Aserbaídsjan í undankeppni EM 2008 í dag. Þar með eru vonir liðsins um að komast í úrslitakeppnina enn á lífi.

Þetta var fyrsti leikur dagsins í undankeppni EM. Finnar þurftu á sigri að halda og voru það því gríðarleg vonbrigði þegar Zaur Tagizade kom gestunum yfir með bylmingsskoti utan vítateigs.

Finnar voru þó mun meira með boltann en tókst ekki að skora, frekar en í síðustu þremur leikjum sínum á undan.

Það var því mikill léttir þegar Mikael Forssell skoraði jöfnunarmarkið á 79. mínútu. Sigurmarkið kom svo þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Shefki Kuqi, leikmaður Fulham, var þar að verki.

Nú veltur allt á síðasta leiknum í riðlinum, gegn Portúgal ytra. Liðin eru nú jöfn á stigum en Portúgal mætir Armeníu í kvöld.

Gríðarleg spenna er í A-riðli þar sem Pólverjar eru á toppnum með 24 stig. Þeir mæta Belgum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×