Innlent

Útiloka ekki íkveikju á Grettisgötu

Enn er allt á huldu um eldsupptök í íbúðarhúsi við Grettisgötu í nótt, en rýma þurfti nokkur íbúðarhús í grendinni vegna reyks. Ekki er útilokað að kviknað hafi í af mannavöldum.

Nokkur íbúðarhús voru rýmd í nótt eftir að eldur kom upp í húsi númer 61 við götuna og mikinn reyk lagði frá því. Engan sakaði. Allt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað á vettvang af ótta við að eldurinn teygði sig í áföst hús. Logaði þá talsverður eldur á efri hæð hússins og í risi en húsið er hæð og ris úr timbri á steyptum kjallara.

Reykkafarar fóru þegar inn í það en fundu engan enda er ekki búið í húsinu um þessar mundir þar sem verið er að gera það upp. Slökkvistarf gekk vel en rjúfa þurfti þak og milligólf til að slökkva í glæðum. Slökkvistarfi lauk um klukkan fimm í morgun en húsið er mikið skemmt af völdum elds, reyks og vatns.

Lögreglumenn eru á vettvangi til að kanna eldsupptök, sem eru óljós. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun útigangsfólk hafa átt til að leita þar skjóls upp á síðkastið. Ekkert liggur þó fyrir um tengsl á milli þess og eldsupptaka, en þetta atriði verður meðal annars rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×