Innlent

Ökumenn taka ekki tillit til forgangsakreina Strætó

MYND/GVA

Lagt er til að forgangsakreinar fyrir strætisvagna og leigubíla verði sérstaklega skilgreindar í umferðarlögum samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Töluvert hefur borið á því að ökumenn taki ekki tillit til þesara akreina. Verði frumvarpið samþykkt munu þeir ökumenn sem nýta sér akreinarnar í heimildarleysi verða sektaðir.

Flutningsmaður frumvarpsins er Steinunn Valdís Óskarsdóttir en auk hennar standa fimm aðrir þingmenn að frumvarpinu. Frumvarpið fór í fyrstu umræðu á Alþingi í gær og var síðan vísað til samgöngunefndar.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., sagðist í samtali við Vísi fagna þessu frumvarpi. Hann segir ökumenn ekki alltaf virða forgangsakreinar. „Vandamálið er verst í Lækjargötunni. Þar virða ökumenn alls ekki forgangsakreinina og vagnstjórar mega bara þakka fyrir að fá að stinga sér inn í bílaröðina."

Að mati Reynis er mikilvægt að akreinarnar verði sérstaklega skilgreindar í umferðarlögum. Meðal annars til að koma í veg fyrir að einkabílar nýti sér þessar akreinar. „Ef samfélagið vill koma á skilvirkum almenningssamgöngum þá verður að halda einkabílum frá þessum akreinum. Ef strætófarþegi situr jafn fastur í umferðinni og hinir þá gæti hann alveg eins verið í einkabíl."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×