Innlent

Olíuleki út frá pakkningu leiddi til þess að þrýstingur féll

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir flugmenn hafa brugðist hárrétt við.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir flugmenn hafa brugðist hárrétt við. MYND/GVA

Fokker-flugvél Flugfélags Íslands, sem þurfti nauðlenda á Egilsstaðaflugvelli í gærkvöld, heldur til Reykjavíkur síðar í dag. Í ljós hefur komið að olíuleiki út frá pakkningu varð þess valdandi að olíuþrýstingur í öðrum hreyfli vélarinnar féll skömmu eftir að hún lagði upp frá Egilsstöðum. Gripu flugmenn vélarinnar á það ráð að snúa aftur til Egilsstaða og nauðlenda vélinni þar.

Að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, fóru flugvirkjar á vegum félagsins austur á Egilsstaði í morgun og skoðuðu vélina þar sem orsök óhappsins kom í ljós. Segir Árni að skipt verði um pakkninguna sem lak og verður vélinni flogið til Reykjavíkur síðar í dag. Hann á von á því að hún fari þá aftur í áætlunarflug.

Aðspurður segir Árni að flugmennirnir hafi brugðist hárrétt við. „Við fórum í gærkvöld og morgun yfir þessi mál og þeir fóru í öllu eftir þeim verkferlum sem gilda þegar þessar aðstæður koma upp," segir Árni.

Atvikið í gær er það annað sem kemur upp hjá félaginu á rúmri viku. Í síðustu viku var slökkviliðið á Akureyri sett í viðbragðsstöðu eftir að framrúða í flugvél Flugfélagsins brotnaði skyndilega í aðflugi að flugvellinum á Akureyri.

Aðspurður hvort einhverjar breytingar hefðu orðið á eftirliti með flugvélum félagsins sagði Árni svo ekki vera. Tilviljun ein réði því að þessi mál kæmu upp með svo stuttu millibili en slælegu eftirliti væri ekki um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×