Innlent

Vissi að búið var að úthluta Listaháskólalóðinni til Náttúrufræðistofnunar

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. MYND/GVA

Menntamálaráðherra, var kunnugt um að búið var að úthluta Náttúrufræðistofnun lóð í Vatnsmýrinni sem síðan var gefin Listaháskóla Íslands í vor. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, á fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Listaháskóli Íslands fékk úthlutað lóð í Vatnsmýrinni í síðastliðnum maímánuði en lóðin hafði í átta ár þar á undan verið merkt Náttúrufræðistofnun á deiliskipulagi. Úthlutunin kom forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands á óvart og haft var eftir honum í fjölmiðlum að hann furðaði sig á henni.

Á Alþingi í dag spurði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, hvort henni hefði verið kunnugt um að búið var að úthluta lóðinni.

Í svari ráðherra kom fram að henni hefði verið kunnugt um það samkomulag sem áður hafði verið gert. Hins vegar sagði ráðherra forsendur í safnamálum hafi breyst á undanförnum árum. Því hefði ekki verið rétt að binda safnið í Vatnsmýrinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×