Innlent

Í samstarf við Indverja á sviði endurnýjanlegra orkugjafa

Gunnar Pálsson, sendiherra á Indlandi, sést hér með fyrrverandi forsteta Indlands.
Gunnar Pálsson, sendiherra á Indlandi, sést hér með fyrrverandi forsteta Indlands.

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands á Indlandi, og yfirmaður ráðuneytis endurnýjanlegra orkugjafa í landinu, V. Subramanian, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf landanna á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Komið verður á fót sameiginlegum vinnuhópi ríkjanna sem hefur það verkefni að skilgreina helstu samstarfsvið, ýta einstökum verkefnum úr vör og stuðla að samstarfi rannsóknarstofnana, háskóla og fyrirtækja eftir því sem við á, eins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar segir einnig að indversk stjórnvöld leggi ríka áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa samfara fjórföldun á orkuframleiðslu landsins á næstu 25 árum. Núverandi hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkuframleiðslu Indlands sé nærri átta prósent en gert sé ráð fyrir að þetta hlutfall aukist í 10 prósent fyrir 2012 og hækki enn frekar í framhaldi af því í ljósi mikilla, ónýttra möguleika og með aukinni tækniþekkingu.

Þá segir enn fremur að Indverjar noti þegar ýmsa endurnýjanlega orkugjafa, þar með talda vatnsorku, sólarorku, vindorku og lífmassa. Indversk stjórnvöld hafi auk þess gefið möguleikum á sviði jarðhita og nýtingu vetnis sem orkubera aukinn gaum. Markaður fyrir endurnýjanlega orku á Indlandi er talinn nema jafnvirði 2,5 milljarða bandaríkjadala og vex hann um 15 prósent á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×