Innlent

Sátu föst í jeppa við Upptyppinga í þrjá daga

Lögreglan á Húsavík fann í dag tékkneskt par nærri Upptyppingum en farið var að svipast um í fyrradag eftir að það skilaði sér ekki til vinnu.

Parið, sem er á þrítugsaldri, fannst við afleggjarann austur að Upptyppingum, sunnan Herðubreiðarlinda. Það hugðist halda að Öskju en festi bíl sinn í snjó og höfðu þau setið föst síðan á sunnudagsmorgun.

Ófært er um hálendið nema vel útbúnum jeppum. Á því áttaði parið sig ekki og því fór sem fór. Að sögn lögreglunnar á Húsavík þá voru þau orðin svöng en að öðru leyti væsti ekki um þau enda ung og auðvelt fyrir þau að halda hita hvort á öðru.

Húsavíkurlögreglan segir nokkra bíla hafa fest sig á hálendinu undanfarna daga og minnir fólk á að ófært sé á þessum slóðum vegna snjóa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×