Innlent

SOS þorpin í suðurhluta Gana hafa sloppið við flóð

Mynd/Getty

Börn í Gana sem búa í SOS barnaþorpum þar í landi og eiga íslenska styrktarforeldra eru óhult þrátt fyrir geysileg flóð í landinu. Flóðin í Afríku hafa haft skelfilegar afleiðingar í för með sér og er Gana á meðal þeirra ríkja sem verst hafa orðið úti.

Ragnar Schram, kynningarstjóri SOS barnaþorpanna hér á landi segir að þau börn sem eigi íslenska styrktarforeldra búi í suðurhluta landsins en flóðin eru í norðurhluta landsins. Mörg önnur Afríkuríki hafa orðið illa úti vegna flóðanna en Ragnar segir að öll afrísk börn sem eigi íslenska styrktarforeldra séu óhult.

Á heimasíðu SOS barnaþorpanna kemur fram að flóðin í Ghana hafi komið niður á 350 þúsund manns. Um hundrað hafa týnt lífi og talið er að um hundrað þúsund séu á vergangi. SOS í Gana veitir nú neyðaraðstoð í landinu en aðstoðin er fjármögnuð af SOS í Svíþjóð.

Ekkert SOS-barnaþorp er í norðurhluta landsins eins og áður sagði en 82 börn í tveimur þorpum í suðurhluta landsins eru styrkt af íslenskum foreldrum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×