Innlent

Borga tvöfalt fyrir að nota íslenska stafi

MYND/AB

Farsímanotendur geta lent í því að borga aukalega fyrir SMS-skeyti noti þeir íslenska stafi þar sem þeir nota að jafnaði meira minni en aðrir bókstafir. Dæmi eru um að menn hafi þurft að borga tvöfalt fyrir SMS-skeyti jafnvel þó þeir hafi bara sent eitt.

Nokkuð umræða hefur skapast um þetta í bloggheiminum. Á bloggsíðu Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur, táknmálskennara, kemur meðal annars fram að þetta hafi verið vandamál hjá þeim heyrnarlausu einstaklingum sem fengu gefins þriðju kynslóðar Motorola farsíma frá Símanum. Hjá mörgum hafi skeytasendingar tvöfaldast með tilheyrandi kostnaði.

Linda Björg Waage, upplýsingafulltrúi Símans, sagði í samtali við Vísi að ekki væri rukkað aukalega fyrir íslenska stafi í SMS-skeytum. Sagði hún um tæknilegt atriði að ræða þar sem íslenskir stafir notast við meira minni en aðrir bókstafir.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone,sagði í samtali við Vísi þetta vera þekkt vandamál. Bendir hann á að hvert SMS skeyti getur bara verið 160 stafir að lengd. Einn íslenskur stafur jafnast hins vegar á við tvo til þrjá bókstafi í minni. Því geta notendur lent í því að farsíminn skiptir einu skeyti upp í tvö þegar hámarksminni er náð.

Hrannar segir þetta þekkt vandamál í löndum víða um heim. Hann segir hægt að koma í veg fyrir þetta með einföldum stillingum sem bannar símanum að skipta SMS-skeyti upp í tvo hluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×