Innlent

Engum hleypt inn í íbúðir nema fyllsta öryggis sé gætt

Það verður engum hleypt inn í íbúðir á gamla varnarsvæðinu nema allt rafmagn verði yfirfarið og lagað samkvæmt íslenskum öryggisstuðlum segir framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Rafiðnaðarfræðingur á svæðinu segir enga hættu stafa af rafkerfinu.



Mikið hefur verið fjallað um rafkerfið í íbúðum á gamla varnarsvæðinu undanfarna daga þar sem kerfið er bandarískt og gæti e.t.v. skapað hættu. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar stefnir að því að afhenda nemendum í háskólanum Keili um 300 íbúðir í ágúst.

Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segir að allt rafkerfið hafi verið yfirfarið og þeirra sérfræðingar segi að engin hætta stafi af því. Engum verði hleypt inn í íbúðirnar nema fyllsta öryggis sé gætt. Reynir Ragnarsson rafiðnaðarfræðingur hefur unnið að því að breyta kerfinu í íbúðum á svæðinu og segir að íbúarnir ættu að geta notað öll sín heimilistæki án nokkurra vandræða.

Öllum íbúðum fylgja uppþvottavélar, eldavélar, þurrkarar, þvottavélar og ísskápar. Öll tækin með bandarísku rafkerfi. Þeim verður öllum skipt út innan næstu þriggja ára.



Bandaríska rafkerfið er 110 volta en evrópska kerfið sem við notum er 230 volta. Bæði kerfin verða því í notkun fyrst um sinn. Búið er að koma fyrir lekaliðum í öllum rafmagnstöflum sem slái rafmagninu út ef eitthvað óvenjulegt á sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×