Innlent

Reykjavík hreinust á Norðurlöndum

Þórir Guðmundsson skrifar

Reykjavík er hreinasta borg á Norðurlöndum. Þetta finnst ferðamönnum sem hingað koma. Danskir sjónvarpsmenn komu til íslensku höfuðborgarinnar og báru hana svo saman við sína eigin. Samanburðurinn var Reykjavík í hag.

Samkvæmt viðamikilli könnun sem gerð var á vegum danska kynningarverkefnisins Wonderful Copenhagen, og byggist á viðtölum við samtals fimm þúsund ferðamenn til Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, þá finnst þeim Reykjavík hreinust en Kaupmannahöfn skítugust.

Sif Gunnarsdóttir frá höfuðborgarstofu gekk með sjónvarpsmönnum um Reykjavík. Það eina sem þeir settu út á var gæsaskíturinn við Tjörnina og tyggjóklessur á götum.

Í tengslum við hina hreinu Reykjavík auglýstu dönsku sjónvarpsmennirnir eftir skítugustu götu Danmerkur. Og hún fannst í Vesterbro í Kaupmannahöfn. Smokkar og saurklessur eru í ræsunum og þarna er líka gamalt dagblað - frá því í ágúst!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×