Fótbolti

Oleg Blokhin hættur með Úkraínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oleg Blokhin, fráfarandi landsliðsþjálfari Úkraínu.
Oleg Blokhin, fráfarandi landsliðsþjálfari Úkraínu. Nordic Photos / AFP

Oleg Blokhin hætti í dag sem landsliðsþjálfari Úkraínu eftir að honum mistókst að stýra liðinu í úrslitakeppni EM 2008.

„Þetta var alls ekki auðveld ákvörðun," sagði Blokhin sem lék á sínum tíma sem framherji með sovéska landsliðinu. „En ég tel að eftir fjögur ár í starfi hafi ég ekkert meira að bjóða landsliðinu. Ég kenni engum öðrum en sjálfum mér um að liðinu mistókst að komast á EM."

Blokhin kom Úkraínu á HM fyrir tveimur árum og var það í fyrsta sinn í sögu landsins sem það komst í úrslitakeppni stórmóts.

Úkraína mun ásamt Póllandi halda EM 2012 en næsta verkefni liðsins er undankeppni HM 2010.

Samkvæmt fjölmiðlum í Úkraínu mun Blokhin hafa sóst eftir fjögurra ára samningi við úkraínska knattspyrnusambandið en núverandi samningur hans rennur út um áramótin.

Blokhin vildi fá að stýra sínum mönnum í EM 2012 en formaður sambandsins var einungis reiðubúinn að bjóða honum tveggja ára samning.

Úkraína er í erfiðum riðli í undankeppni HM 2010 með Króatíu og Englandi.

Blokhin sagði ekkert vera í deiglunni um hvað hann myndi taka sér fyrir hendur nú né heldur sagði úkraínska knattspyrnusambandið að leit væri hafin af eftirmanni hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×