Innlent

Tófan Birta aflífuð af lögreglu

Tófan Birta
Tófan Birta

"Þetta var algjör óþarfi," segir Kristján Einarsson grenjaskytta á Flateyri en tófan Birta, sem hann hefur haft sem húsdýr í garði sínum frá því í vor, var aflífuð í gær.

Kristján hefur tvisvar sleppt Birtu fyrir utan Flateyri en í bæði skiptin hefur hún mætt aftur í Goðatúnið til Kristjáns morguninn eftir. Síðara skiptið var í gærmorgun. Þá var Birta á vappi skammt frá heimili Kristjáns eftir að hafa verið sleppt daginn áður fyrir utan bæinn.

Svo virðist sem lögreglu hafi verið tilkynnt um þetta og hafi svo klófest tófuna. Haft var samband við Kristján og hann látinn vita af þessu.

Kristján segir að þá hafi hann verið á heimleið og tilkynnt lögreglu að hann myndi koma við og sækja tófuna. Þegar Kristján kom loks niðrá Flateyri var það of seint. Birta hafði verið aflífuð.

Kristján er verurlega vonsvikinn yfir þessu. Hann segir að börnin í hverfinu hafi verið hænd tófunni og hana hafi ekki þurft að óttast.

"Hún beit aldrei og gelti aldrei," segir Kristján um tófuna. Hann bætir því við að ef Birta hefði verið til vandræða hefði hann fargað henni sjálfur.

"En þetta var algjör óþarfi," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×