Innlent

Útvarpsstjóri leysti Stóra-Klaufamálið

Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon

Jakob Frímann Magnússon stuðmaður og formaður Samtóns og Félags tónskálda og textahöfunda gekk sáttur og vonglaður frá fundi með Páli Magnússyni, Útvarpsstjóra í dag.

Jakob Frímann segir Útvarpsstjóra hafa augljósan vilja til þess að efla dagskrárgerð á Rás 2 og færa útvarpsstöðina í nútímalegt umhverfi. „Útvarpsstjóri segir að frá og með apríl á næsta ári muni rekstur Ríkisútvarpsins breytast og Rás 2 fá aukinn hlut af rekstrafé stofnunarinnar. Þessar yfirlýsingar gefa mér og öðrum tónlistarmönnum tilefni til gleðilegra jóla,“ segir Jakob Frímann.

Stóra Klaufamálið svokallaða hefur verið áberandi á síðum Fréttablaðsins að undanförnu. Sent var út frá tónleikum kántrísveitarinnar Klaufa á Rás 2 en það stóð á borgun reikninga sem sveitin lagði inn til Ríkisútvarpsins þrátt fyrir að samningar milli RÚV og FÍH kveði skýrt á um greiðslur til tónlistarmanna. Það varð til þess að Jakob Frímann bað um fundinn með Páli sem fram fór í dag.

Jakob segir að Páll hafi verið búinn að leysa úr Stóra-Klaufamálinu áður en til fundarins kom og að fundurinn gefi tilefni til bjartsýni fyrir framtíð unnenda Rásar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×