Innlent

Hæstiréttur braut gegn Mannréttindasáttmála Evrópu

Hæstiréttur Íslands braut gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttlæta málsmeðferð samkvæmt nýföllnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Málið á rætur að rekja til ársins 1999. Þá seldi málshöfðandi, Súsanna Rós Westlund, fasteign í Vesturbæ Reykjavíkur. Nokkru síðar krafðist kaupandinn skaðabóta þar sem hann taldi sýnt að í húsinu væru leyndir gallar. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem dæmdi Súsönnu til að greiða skaðabætur. Hún áfrýjaði til Hæstaréttar og krafðist þess að bæturnar yrðu felldar niður en til vara að þær yrðu lækkaðar.

Hæstiréttur meinaði hins vegar Súsönnu að flytja málið munnlega eða skriflega eftir að kaupandinn ákvað ekki að taka til varnar. Var þetta í samræmi við skilning Hæstaréttar á 158. grein laga um meðferð einkamála.

Hæstiréttur staðfesti síðan niðurstöðu Héraðsdóms.

Súsanna kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu og féll dómur síðastliðinn föstudag. Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins braut Hæstiréttur Íslands gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt manna til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar. Þá var íslenska ríkið ennfremur dæmt til að greiða Súsönnu 2.500 evrur í miskabætur, eða um 225 þúsund krónur, og 18.000 evra, eða 1,5 milljón króna, í málskostnað að viðbættum vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×