Innlent

Sakfelldur fyrir að slá mann í höfuðið með gleríláti

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í dag karlmann fyrir líkamsárás og umferðarlagabrot en gerði honum ekki sérstaka refsingu þar sem hann hafði áður verið dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Manninum var gefið að sök að hafa í febrúar 2005 slegið annnan mann í höfuðið með gleríláti þannig að það brotnaði og maðurinn fékk skurði á hnakka, hvirfli og enni. Þá var hann ákærður fyrir að hafa ekið bíl í tvígang án ökuréttinda en lögregla stöðvaði för hans í bæði skipti. Maðurinn neitaði sök í líkamsárásarmálinu en út frá framburði vitna var hann sakfelldur. Þá játaði hann á sig umferðarlagabrotin.

Maðurinn hlaut tveggja ára dóm í héraðsdómi í apríl síðastliðnum, meðal annars fyrir húsbrot, stórfellda líkamsárás og tilraun til brennu. Bar því dómnum að dæma manninum hegningarauka fyrir líkamsárásina og umferðarlagabrotin tvö. Þegar horft var til þess hver dómur mannsins í apríl hefði orðið ef dæmt hefði verið fyrir öll brotin saman mat dómurinn það svo að ekki bæri að þyngja tveggja ára dóminn.

Dómurinn átaldi það hvað lögregla hefði dregið að rannsaka málið en ákæra í því var ekki gefin út fyrr en í júlí í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×