Innlent

Ungt þjófagengi dæmt í 33 mánaða fangelsi

MYND/Valli

Fjórir piltar á aldrinum 15-18 ára voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í samtals 33 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjölda innbrota í Reykjavík og Kópavogi snemma á þessu ári.

Alls voru ákæruliðirnir í málinu þrettán talsins. Mennirnir brutust nótt eina í febrúar inn í fjórar verslanir og höfðu þaðan á brott með sér meðal annars vasaúr, tölvu, ljósmyndavélar og rakvélar og hársnyrtivörur. Nóttina eftir stálu þeir svo tölvu í fimmta fyrirtækinu. Einn mannanna var auk þess ákærður fyrir að aka bíl undir áhrifum fíkniefna í sumar.

Piltarnir játuðu allir brot sín og fóru fram á vægustu refsinga. Sá sem þyngstan dóm hlaut fékk 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi en hann átti að baki refsingu fyrir önnur brot. Þá var einn dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og tveir í hálfs árs skilorðsbundið fangelsi.

Voru dómarnir skilorðsbundnir þar sem dómurinn taldi að piltarnir hefðu snúið af villu síns vegar og vegna þess að þeir játuðu brot sín greiðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×