Enski boltinn

Ince og Coppell ósáttir við ráðningu Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Ince, stjóri MK Dons og fyrrum landsliðsfyrirliði Englands.
Paul Ince, stjóri MK Dons og fyrrum landsliðsfyrirliði Englands. Nordic Photos / Getty Images

Paul Ince, stjóri MK Dons, og Steve Coppell, stjóri Reading, eru ósáttir við að Englendingur hafi ekki verið ráðinn landsliðsþjálfari þar í landi.

Ince sagði að ráðning Capello væri áfellisdómur fyrir enska knattspyrnu. „Við erum með nægilega góða knattspyrnustjóra í Englandi sem gætu staðið sig alveg eins vel," sagði hann.

Hann segir að enskir knattspyrnustjórar leggi mikið á sig til að sanka að sér reynslu á ferlinum. „Svo þegar landsliðið fær erlendan þjálfara spyr maður sjálfan sig hver sé eiginlega tilgangurinn með því."

Coppell tók í sams konar streng. „Þetta er sorglegt ef ég á að segja alveg eins og er. Ég er stoltur af mínu starfi sem enskur knattspyrnustjóri og ég hefði viljað að Englendingur hefði verið ráðinn í starfið."

Annar sem var mótfallinn ráðningunni var Tony Adams, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, rétt eins og Ince.

„Það er til mikið af hæfum knattspyrnustjórum í Englandi og ég held að það hefði verið betra ef við hefðum reynt að ráða einhvern enskan í starfið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×