Enski boltinn

Eboue bað Terry afsökunar

Eboue meiddi Terry en var svo sjálfur borinn af velli
Eboue meiddi Terry en var svo sjálfur borinn af velli NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Emmanuel Eboue hjá Arsenal bað John Terry fyrirliða Chelsea afsökunar á að hafa valdið meiðslum hans í leik liðanna um helgina. Þetta segir framherji Chelsea, Salomon Kalou.

Eboue setti takkana fyrir Terry um leið og hann hreinsaði boltann frá markinu með þeim afleiðingum að Terry meiddist á ökkla. Hann er óbrotinn en verður tæplega með Chelsea í jólavertíðinni og gengur um á hækjum.

"Ég sagði Eboue að hann hefði átt skilið að fá rautt spjald því hann hafi gert þetta viljandi, en hann neitaði því," sagði Kalou um landa sinn Eboue. "Hann sagðist bara hafa verið að reyna að verjast hreinsun Terry og segist hafa beðið hann afsökunar. Hann ætlaði ekki að gera þetta en það var gott hjá honum að biðjast afsökunar á þessu. Nú verðum við að vera án Terry í næstu leikjum og það er ekki gott mál," sagði Kalou.

Kaldhæðni örlaganna varð svo sú að Eboue meiddist sjálfur á hné í leiknum eftir tæklingu frá Joe Cole og missir væntanlega af næstu leikjum Arsenal fyrir vikið. "Hann er meiddur á hné og við sjáum ekki hve alvarleg meiðslin eru fyrr en eftir um tvo sólarhringa, en það er útlit fyrir að hann verði frá í einhvern tíma," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×