Innlent

Áfram viðræður við landeigendur þrátt fyrir álit Ríkisendurskoðunar

Landsvirkjun hefur ákveðið að halda áfram samningaviðræðum við landeigendur við Þjórsá þrátt fyrir athugasemdir Ríkisendurskoðunar um að samþykki Alþingis þurfi fyrir framsali ríkisins á vatnsréttindinum til Landsvirkjunar.

Þrír ráðherrar síðustu ríkisstjórnar létu það verða eitt sitt síðasta verk þremur dögum fyrir þingkosningarnar í vor að ganga frá samningum við Landsvirkjun um framsal ríkisins á vatns- og landsréttindunum við Þjórsá.

Þingflokkur Vinstri grænna brást við með því að krefjast þess að Ríkisendurskoðun kannaði lögmæti gerningsins og varð niðurstaða hennar sú að ekki mætti framselja slík réttindi nema með lögum frá Alþingi. Því hefði þurft að setja fyrirvara í framsalið um samþykki Alþingis.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, taldi þetta þýða að Landsvirkjun gæti ekki haldið áfram undirbúningi þriggja virkjana við Þjórsá og allir þeir samningar sem fyrirtækið hefði gert og reynt að gera í krafti framsalsins væru að engu orðnir. Vinstri grænir voru reyndar einir á báti í utandagskrárumræðu um málið á Alþingi í síðustu viku en fulltrúar annarra flokka sögðu málatilbúnað Vinstri grænna storm í vatnsglasi

Landsvirkjun hefur nú formlega markað þá afstöðu að halda áfram virkjanaundirbúningi eins og ekkert hafi í skorist. Í yfirlýsingu á heimasíðu Landsvirkjunar segir að athugasemdir Ríkisendurskoðunar breyti ekki því meginatriði sem felist í samkomulaginu, að Landsvirkjun hafi heimild til að ræða við og semja við landeigendur.

Kveðst Landsvirkjun stefna að því að sækja um virkjanaleyfi á næsta ári og fáist þau verði gengið til samninga við ríkið um yfirtöku vatnsréttinda og greiðslu endurgjald fyrir þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×