Innlent

Réðist inn á heimili vopnaður sleggju á aðfangadagskvöld

Breki Logason skrifar

„Ég sat hérna og var að opna pakkana mína á aðfangadagskvöld þegar hann stendur allt í einu fyrir framan mig með sleggju í hendinni,“ segir kona sem búsett er á Akureyri og varð fyrir hrikalegri reynslu á jólunum.

Fyrrum sambýlismaður hennar réðst þá inn á heimili hennar og þreif í glas sem konan var með í höndunum. „Ég var nú bara að fá mér malt og appelsín eins og allir gera þegar hann rífur það úr höndunum á mér og kastar því í sjónvarpið," segir konan sem var nýbúin að fá sér 42" glænýtt sjónvarpstæki.

Því næst gengur maðurinn upp að sjónvarpinu og lætur höggin dynja með sleggjunni. „Hann gekk nú bara berserksgang og eyðilagði sjónvarpið. Hann sagði ekki orð heldur rauk út eftir það. Ég vissi ekker hvað honum gekk til en var dauðskelkuð," segir konan en maðurinn var þá ekki hættur.

„Ég sá það svo ekkert fyrr en daginn eftir að hann hafði skorið á öll dekkin á jeppanum mínum. Þau voru öll fjögur ónýt en ég fékk mér ný vetrardekk nú í haust. Þetta er alveg hrikalegt."

Konan hringdi á lögregluna sem kom á staðinn og kannaði aðstæður. Lögreglan á Akureyri staðfesti við Vísi að hún hefði haft afskipti af þessu máli en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málsatvik.

Konan segist hafa búið með manninum í nokkur ár en hún er nokkuð skelkuð eftir uppákomuna. „Það eru auðvitað allir í hverfinu skíthræddir þegar maður vopnaður eggvopni ræðst svona inn á heimili manns. Meira að segja hundurinn og kötturinn kippast við þegar við heyrum í einhverjum hérna fyrir utan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×