Enski boltinn

Rooney er klár í slaginn - bókstaflega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leik gegn Arsenal í síðasta mánuði.
Wayne Rooney í leik gegn Arsenal í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney telur að sú þjálfun sem hann hlaut í hnefaleikum sem drengur muni koma sér að góðum notum í leik Manchester United og Liverpool á morgun.

Rooney segir að sá styrkur og sú ákveðni sem hann hafi hlotið í gegnum þjálfun sína í hnefaleikaíþróttinni hafi komið sér til góða á knattspyrnuvellinum.

„Ég held að þjálfunin í hnefaleikunum hafi komið mér til góða sem knattspyrnumaður, sérstaklega þar sem ég byrjaði svo ungur að spila í úrvalsdeildinni," sagði hann í samtali við The Sun í dag.

„Það hefur auðveldað knattspyrnuna fyrir mig og átt sinn hluta í að móta minn stíl í knattspyrnunni."

Hann hlakkar vitanlega mikið til leiksins á morgun en hann hefur áður sagt að honum finnist fátt skemmtilegra en að mæta með liði sínu á Anfield Road.

„Þegar leikjalistinn er birtur fyrir tímabilið leita ég fyrst af leikjunum við Liverpool og svo Manchester City næst. En þetta verður svakaleg helgi. Sú staðreynd að Arsenal og Liverpool töpuðu bæði sínum leikjum um helgina kemur sér frábærlega fyrir okkur. Ef við vinnum á morgun eigum við góðan möguleika á að koma okkur á toppinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×