Innlent

Yfir 300 þúsund lítrar af jólabjór renna ofan í landann

MYND/Hörður

Reikna má með að yfir 300 þúsund lítrar af innlendum og erlendum jólabjór renni ofan í landann fyrir þessi jól. Mjöðurinn fer brátt að verða uppseldur að sögn innkaupastjóra ÁTVR.

Fréttir bárust af því í morgun að jólabjór í Danmörku væri að verða uppseldur en þar í landi eru framleiddar um 45-50 milljónir lítra af miðinum. Hluti hans er sendur hingað til lands og hefur jólabjór notið vaxandi vinsælda hér á landi á síðustu árum en hann kemur yfirleitt í búðir um miðjan nóvember. Örn Stefánsson, innkaupastjóri ÁTVR, segir ástandið svipað hér á landi og í Danmörku og að jólabjórinn sé að verða uppseldur. „Bjórinn er framleiddur í takmörkuðu magni og hann þrýtur yfirleitt í kringum jólin," segir Örn.

Aðspurður segir Örn að jólabjórssala hafi farið vaxandi á liðnum árum. Jólabjór sé bæði fluttur inn frá Danmörku og Bandaríkjunum ásamt því sem innlend brugghús framleiða slíkan bjór. „Sölutölur þessa árs liggja ekki fyrir en í fyrra seldust yfir 300 þúsund lítrar af jólabjór og það má gera ráð fyrir að salan verði ekki minni ár," segir Örn. Rúmlega tveir þriðju hlutar jólabjórsins sem seldist í fyrra var íslenskur, eða um 200 þúsund lítrar, og reyndist Viking-jólabjór söluhæstur þá. Þar á eftir kom Tuborg-jólabjórinn sem Örn segir mjög vinsælan líka.

Örn bendir á að bjórneysla hér á landi aukist ekki sem nemur sölunni á jólabjórnum heldur minnki neysla á hefðbundnum bjórtegundum í aðdraganda jólanna. „Það má segja að þetta sé tilbreyting fyrir fólk í skammdeginu," segir Örn um jólabjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×