Fótbolti

Gunnar Heiðar: Úrslitin gefa ekki rétta mynd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar í baráttunni við Dani í kvöld.
Gunnar Heiðar í baráttunni við Dani í kvöld. Mynd/Martin Sylvest

Gunnar Heiðar Þorvaldsson segir mikinn hug hafi verið í íslenska liðinu um að reyna að klára undankeppnina á sem bestan hátt.

„Við ákváðum það að reyna að klára þetta mót með stæl og mér fannst við gera það ágætlega þótt að úrslitin gefi ekki rétta mynd af þessum leik," sagði Gunnar Heiðar eftir leik.

„Mér fannst við vera heilsteyptari inn á vellinum sem lið og mér fannst þessir ungu strákar sem komu inn skila sínu mjög vel. Það var meiri samheldni í liðinu og við vorum að leggja okkur fram fyrir hvern annan. Við vissum það fyrir leikinn að þetta yrði erfitt og yrði hálfgerður eltingarleikur. Við lögðum upp með það að verjast númer eitt, tvö og þrjú. Við eigum að geta byggt ofan á það sem við gerðum núna og vonandi verður þetta betra næst," sagði Gunnar Heiðar.

„Við fengum mark á okkur sem var með miklum heppnisstimpli og það var bakslag. Við reyndum bara að halda áfram og reyna að standa okkur fyrir þjóðina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×