Karlmaður á þrítugsaldri, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í nærri tvær vikur vegna íkveikju í Þorlákshöfn þann 20. janúar, hefur játað að hafa brotist inn í húsið, stolið þaðan ýmsum munum og síðan borið eld að því.
Segir lögregla á Selfossi í tilkynningu að rannsókn bendi til að hann hafi verið einn á ferð við þessa iðju sína en unnusta mannsins sat um tíma í gæsluvarðhaldi eftir að hluti þýfisins fannst á heimili hennar. Héraðsdómur Suðurlands framlengdi í gær gæsluvarðhald yfir manninum til 9. mars og segir lögreglan að rannsókn málsins sé langt á veg komin. Málið verður sent Ríkissaksóknara að henni lokinni.
Mildi þótti að enginn slasaðist í eldinum en kona sem bjó í hinum enda hússins bjargaðist út ásamt tveimur börnum sínum rétt áður en eldsprenging varð í nágrannaíbúðinni.