Breska hljómsveitin Throbbing Gristle var brautryðjandi í „industrial“-tónlistinni sem kom fram á seinni hluta áttunda áratugarins. Hún sendi nýlega frá sér sína fyrstu plötu með nýju efni í 25 ár. Trausti Júlíusson rifjaði upp feril þessarar áhrifaríku sveitar.
Þegar breska hljómsveitin Throbbing Gristle (TG) steig fram á sjónarsviðið árið 1975 risu margir upp til að fordæma hana. Einn af þeim var Sir Nicholas Fairbairn, breskur þingmaður, sem kallað meðlimi sveitarinnar „Wreckers Of Civilisation“ – niðurrifsmenn siðmenningarinnar.
Hljómsveitin fagnaði þessu viðurnefni og hampaði því óspart. Á árunum 1975-1981 hélt TG fjölda tónleika og sendi frá sér plötur sem höfðu mikil áhrif. Sveitin kom svo saman aftur fyrir skömmu og sendi frá sér nýja plötu, Part Two: The Endless Not.
Prostitution-sýninginThrobbing Gristle varð til upp úr gjörningalistahópnum COUM Transmissions. Meðlimirnir voru Genesis P-Orridge bassaleikari, Cosey Fanni Tutti gítarleikari, hljómborðsleikarinn Chris Carter og Peter „Sleazy“ Christopherson sem meðhöndlaði tónlistina með segulböndum. Genesis og Cosey voru bæði listamenn, Sleazy var hönnuður, en Chris var með tækjadellu á háu stigi og sérhæfði sig í því að smíða sína eigin hljóðgervla. Cosey hafði m.a. leikið í nokkrum klámmyndum í listrænum tilgangi.
TG tók þátt í sýningunni Prostitution í ICA listamiðstöðinni í London 1976, en sú sýning hneykslaði marga. Þar mátti m.a. sjá brot frá fyrrnefndum kvikmyndaferli Cosey Fanni Tutti, innsetningar með notuðum túrtöppum o.fl. sem ekki þótti boðlegt, síst af ölli í svo virðulegri stofnun. Tónleikar TG fyrstu árin hófust með því að kveikt var á skeiðklukku og nákvæmlega 60 mínútum síðar var rafmagnið tekið af.
Mikil áhrifThrobbing Gristle átti það sameiginlegt með pönkinu að ráðast gegn ríkjandi tónlist og þjóðfélagsskipan, en TG gekk mun lengra á báðum sviðum. Tónlistin var að miklu leyti sveiflukenndur hávaði, án takts og greinanlegrar uppbyggingar. Einhvers konar rafræn sýra. Á plötum sveitarinnar var tónlistin samt aðgengilegri en á tónleikum. Plötur eins og The Second Annual Report (1977), D.O.A. (1978) og 20 Jazz Funk Greats (1979) eru vel þess virði að tékka á þeim.
Eftir að TG hætti, stofnuðu Genesis og Sleazy Psychic TV (sem hélt eftirminnilega tónleika með Kuklinu í HM 1984), en Chris & Cosey stofnuðu samnefnt dúó. Hvortveggja poppaðri sveitir en TG.
TG hafði mikil áhrif t.d. á 23 Skidoo, SPK, Einsturzende Neubauten, Laibach, Front 242 og zoviet*france. Á Íslandi mátti heyra áhrif frá TG hjá Bruna BB, Inferno 5 og hinni vanmetnu eðalsveit Reptilicus.