Fótbolti

Ekki kenna Carson um tapið

Scott Carson upplifði martröð í sínum fyrsta alvörulandsleik í gær
Scott Carson upplifði martröð í sínum fyrsta alvörulandsleik í gær NordicPhotos/GettyImages

Slaven Bilic, þjálfari króatíska landsliðsins, biður menn að kenna markverðinum unga Scott Carson ekki um tapið á Wembley í gær - hann hafi verið besti maður enska liðsins.

Hinn 22 ára gamli Carson var mjög taugaóstyrkur í leiknum og skrifast fyrsta markið algjörlega á hans reikning - eins og kannski þriðja mark Króata líka. Bilic vill ekki að Carson verði gerður að blóraböggli.

"Það þýðir ekki að finna blóraböggla af því við vorum einfaldlega betra liðið í þessum leik. Menn gerðu það með Paul Robinson eftir leikinn okkar í Zagreb, en þó hann hafi kannski gert mistök í öðru markinu þar - var hann besti maður enska liðsins í þeim leik líkt og Carson var í þessum leik," sagði Bilic.

"Við sýndum mikla skapfestu með því að koma hingað og vinna og enska liðið á líka heiður skilinn, þetta var frábær knattspyrnuleikur. Það er ekkert að enskri knattspyrnu, þetta var bara erfiðasti riðillinn í keppninni og í honum voru þrjú lið sem áttu skilið að komast áfram á EM," sagði Bilic og hraunaði yfir bresku pressuna í leiðinni.

"Ég las það í blöðunum að enginn í króatíska liðinu kæmist í enska landsliðið. Það er kjaftæði. Reynið að vakna! Við erum kannski lítil þjóð en við spilum góðan fótbolta og höfum sterk lungu," sagði Bilic og bætti við að enska liðið hefði verið heppið að fá vítaspyrnu í leiknum þegar Josip Simunic togaði í treyju Jermain Defoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×