Tónlist

Svíar krefjast nærveru Eiríks

Eiríkur Hauksson
Hlaut afgerandi kosningu á úrslitakvöldinu og verður meðal gesta í árlegum Eurovision-þætti sænska sjónvarpsins.
Eiríkur Hauksson Hlaut afgerandi kosningu á úrslitakvöldinu og verður meðal gesta í árlegum Eurovision-þætti sænska sjónvarpsins. MYND/Anton

„Svíarnir sem framleiða þáttinn heyrðu af sigri Eiríks og vildu ólmir halda honum í þættinum. Töldu það bara vera þættinum til framdráttar að vera með sigurvegara innanborðs," segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri í Efstaleitinu.

Eins og mörgum er kunnugt hefur Eiríkur verið fastagestur í árlegum Eurovision-þætti norrænu sjónvarpsstöðvanna, Inför Eurovision Song Contest, þar sem nokkrir valinkunnir tónlistarspekingar segja sitt álit á þátttakendum í keppninni.

Eftir sigur Eiríks fóru á kreik sögur um hvort söngvarinn gæti áfram verið með í þættinum en Páll segir svo vera. Og telur þetta bara vera plús fyrir land og þjóð því þetta hafi í för með sér mikla kynningu fyrir Eirík og lagið. „Hann verður sverð okkar og skjöldur í Eurovision þetta árið," segir Páll og hlær.

Sigurlagið Ég les í lófa mínum eftir Svein Rúnar Sigurðsson hlaut afgerandi kosningu samkvæmt fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöldinu. Þetta verður í þriðja sinn sem Eiríkur syngur í Eurovision-keppninni en hann hefur einu sinni áður tekið þátt fyrir Íslands hönd þegar Icy-tríóið tróð upp með Gleðibankann í Bergen árið 1986. -






Fleiri fréttir

Sjá meira


×