Tónlist

Tónlist af amerískum ættum

Ingveldur Ýr Jónsdóttir mezzósópransöngkona og píanóleikarinn Kurt Kopecky flytja aríur og sönglög af amerískum uppruna á hádegistónleikum Íslensku óperunnar í dag. Á efnisskrá dagsins, sem ber yfirskriftina „Andagift frá Ameríku", eru óperuaríur, söngleikjalög og djasstónlist eftir Stephen Sondheim, Kurt Weill, Menotti og fleiri.

Ingveldur Ýr Jónsdóttir stundaði nám við Tónlistarskóla Vínarborgar og Manhattan School of Music í New York. Að lokinni mastersgráðu í söng starfaði hún við óperuhús víða erlendis. Hún hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og CAPUT-hópnum auk þess að syngja inn á hljómdiska. Meðfram starfi sínu sem óperusöngkona hefur Ingveldur um árabil rekið sitt eigið söngstúdíó og haldið fjölda námskeiða fyrir söngáhugafólk á öllum aldri. Ingveldur Ýr syngur um þessar mundir hlutverk hinnar skeggjuðu Tyrkja-Böbu í uppsetningu Íslensku óperunnar á Flagara í framsókn eftir Stravinsky og hefur hlotið góða dóma fyrir frammistöðu sína.

Tónleikarnir standa yfir í um fjörutíu mínútur og er tilvalið fyrir þá sem starfa eða búa í miðbænum að taka sér örstutt frí frá dagsins önnum og líta inn í Óperuna í hádeginu og hlýða á ljúfa tóna. Veitingar verða boðnar til sölu í anddyri hússins, bæði fyrir og eftir tónleikana. - khh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×