Lífið

Miðasala hefst á morgun

Miðasala fyrir tónleika Nick Cave, sem fram fara í Laugardalshöll laugardaginn 16. september, hefst á morgun fimmtudaginn 29. júní kl. 10:00 í verslunum Skífunnar, BT Akureyri, Egilstöðum og Selfossi og á www.midi.is.

Um er að ræða sitjandi tónleika og verða aðeins seldir miðar í númeruð sæti. Búið er að skipta höllinni upp í tvö svæði; sal og stúku. Miðaverð í salnum er 6.500 krónur (auk 440 kr miðagjalds), miðaverð í stúku er 5.500 krónur (auk 380 kr miðagjalds).

Aðeins 2.500 miðar eru í boði á tónleikana.

Það er Hr. Örlygur sem stendur fyrir tónleikum Nick Cave á Íslandi í samvinnu við Icelandair og Rás 2.

Nick Cave kemur fram í Laugardalshöll ásamt hljómsveit sem skipuð er Bad Seeds meðlimunum Martyn P. Case, Jim Scavunos og áðurnefndum Warren Ellis.

Um Nick Cave

Nick Cave er maðal virtustu tónlistarmanna samtímans og á að baki tímamótaverk bæði eins síns liðs og með hljómsveitunum Birthday Party og The Bad Seeds. Hann hélt tvenna eftirminnilega tónleika hér á landi fyrir fjórum árum. Þar sem miðarnir á fyrri tónleikana seldust upp á 50 mínútum voru skipulagðir sérstakir aukatónleikar sem einnig seldist upp á skömmum tíma. Nick Cave var síðast staddur hérlendis í fyrra við frumsýningu uppfærslu Vesturports á Woyzeck, en hann samdi tónlistina við verkið ásamt Bad Seeds meðliminum Warren Ellis. Þeir félagar sendu nýlega frá sér breiðskífuna The Proposition sem inniheldur tónlist úr samnefndri kvikmynd.

Nick Cave á að baki fjölmörg ódauðleg meistaraverk. The Firstborn is Dead (1985), Your Funeral, My Trial (1986) og Tender Pray (1988) eru á meðal helstu verka Nick Cave and the Bad Seeds frá níunda áratugnum. Sveitin náði nýjum hæðum í vinsældum með Let Love In (1992) og Murder Ballads (1996) þar sem PJ Harvey og Kylie Minogue syngja með Cave á plötunni í lögunum "Henry Lee" og "Where the Wild Roses Grow" sem er meðal allra vinsælustu laga Nick Cave. Murder Ballads var fylgt eftir með einlægri, hrárri og fallegri The Boatman's Call (1997) sem þrátt fyrir að ná ekki sömu vinsældum og fyrri tvær skífur Bad Seeds fékk einróma lof gagnrýnenda og þykir með sterkustu verkum Nick Cave.

Eftir að útgáfu ljóðaplötunar Secret Life the Love Song (1999) snéri Nick aftur með Bad Seeds á No More Shall We Apart (2001) sem var vel tekið af plötukaupendum og gagnýnendum og í kjölfarið fylgdu Nocturama (2003) og hin tvöfalda Abbatoir Blues/The Lyre of Orpheus (2004). Árið 2000 flutti meistari Johnny Cash lag Cave "The Mercy Seat" á plötu sinni American III: Solidarity Man og saman tóku þeir síðar upp lögin "I'm so Lonesome I Could Cry" og "Cindy" sem komu út á breiðskífum Cash; American IV: The Man Comes Around og Johnny Cash: Unhearted.

Nick Cave hefur skrifað fjölmörg ljóð, leikrit og kvikmyndahandrit sem meðal annars má finna í bók hans Kings Ink frá 1988. Hann hefur auk þess leikið í nokkrum kvikmyndum m.a. Wings of Desire og Ghosts...of the Civil Dead í leiksjórn Tim Wenders og Johnny Suede þar sem Brad Pitt var í aðalhlutverki. Fjölmagar safnplötur, tónleikaplötur og DVD diskar með tónlist og myndverkum Nick Cave og Bad Seeds hafa verið gefin út í gegnum tíðina. The Best of Nick Cave and the Bad Seeds frá 1988 inniheldur vinsælustu lög Nick Cave og hljómsveitar hans og á B-Sides & Rarities sem kom út í fyrra má finna 56 lög sem áður erfitt hefur verið að ná í til þessa og/eða komið út á smáskífum og verið í hinum ýmsu kvikmyndum. Í byrjun ársins kom út DVD diskurinn Road to God Knows Where/Live at the Paradisco sem inniheldur sögufræga heimildarmynd frá tónleikaferðalagi sveitarinnar um bandaríkin og tónleikaupptöku frá tónleikum hennar í Amsterdam árið 1992.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×