Lífið

Upprisukvöld Nykurs

Árið 1995 var Nykur stofnaður af nokkrum ungum skáldum sem bókmenntavettvangur og sjálfshjálparbókarforlag. Á vegum Nykurs komu fyrstu verk skálda og rithöfunda á borð við Andra Snæ Magnason, Davíð A.Stefánsson, Steinar Braga, Ófeig Sigurðsson og fleiri. Alls komu út 13 bækur á vegum Nykurs til ársins 2003, en þá fór hann aftur í tjörnina og beið færis.

Nú, þremur árum síðar, hefur stokkast upp og fjölgað í mannafla Nykurs.

Yngri skáld hafa bæst í hópinn og flóran orðin meiri. Í kvöld mun Nykurinn koma aftur upp á yfirborðið, tvíefldur og með ferskan blæ. Frá og með þessum tímapunkti mun Nykur verða nýtt skálda- og bókmenntaafl á Íslandi. Með haustinu munu koma út bækur nokkurra skálda undir merkjum Nykurs.

Upprisukvöldið mun fara fram á Cafe Rósenberg kl. 22:00.

Skáldin munu lesa upp úr frumsömdu efni, en á milli þess verður farið yfir hvað Nykur hefur gert og hver framtíð hans er.

Nykurskáld að þessu sinni verða:

Arngrímur Vídalín

Davíð A. Stefánsson

Emil Hjörvar Petersen

Kári Páll Óskarsson

Urður Snædal

Kynnir verður Hildur Lilliendahl og sérstakur gestalesari verður Ingibjörg Haraldsdóttir. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×