Lífið

Aparnir í Eden

MYND/ Guðmundur Freyr Vigfússon

Hin margrómaða Köntrísveit Baggalúts hefur lokið upptökum á sinni annarri hljómskífu sem ber titilinn Aparnir í Eden. Lokaupptökur fóru fram í félagsheimilinu að Flúðum í síðustu viku. Á hljómskífunni er að finna yfir 20 sveitasöngva sem flestir eru samdir undir sterkum áhrifum frá svokölluðu sjávarútvegs- og strandköntrí (e. Hawaiian) þó nokkuð beri þar á hefðbundnu innsveita- og hálendisköntrí eins og á fyrri hljómskífu Baggalúts, Pabbi þarf að vinna, sem kom út á síðasta ári.

Mikill fjöldi listamanna lagði sveitinni lið að þessu sinni, má þar nefna söngvarana Kristján Kristjánsson (KK), Björgvin Halldórsson, Valgeir Guðjónsson og Borgardætur. Sem kunnugt er komst hljómsveitin í samband við rúmenska panflautusnillinginn Zamfir, en vegna tungumálaörðugleika varð ekki af samstarfi að svo stöddu, þó af tölvupósti frá talsmanni meistarans megi skilja að hann kunni vel að meta lagasmíðar og tónlistarstefnu sveitarinnar. Nokkur hópur erlendra listamanna lagði þó sitt af mörkum, má þar frægasta telja blásarana Jim Hoke og Neil Rosengarden, en sá síðarnefndi er einn færasti dægurlagahornleikari veraldar.

"Aparnir" eru væntanlegir í verslanir í næsta mánuði.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×