Erlent

Vísa orðum Hersh á bug

Bandarísk stjórnvöld neita því alfarið að þau íhugi að gera kjarnavopnaárás á írönsk kjarnorkuver eins og fullyrt er í tímaritinu New Yorker. Þau útiloka þó ekki að beita Írana hervaldi haldi þeir kjarnorkuáætlun sinni til streitu.

Óhætt er að segja að grein rannsóknarblaðamannsins Seymours Hersh í nýútkomnu hefti bandaríska tímaritsins The New Yorker hafi valdið athygli. Í henni staðhæfir Hersh að Bandaríkjamenn undirbúi stórfelldar hernaðaraðgerðir gegn Írönum til að koma í veg fyrir að þeir komi sér upp kjarnavopnum. Þar sem auðgun úrans fer að mestu fram í vinnslustöðvum neðanjarðar segir Hersh hernaðarsérfræðinga landvarnaráðuneytisins ekki útiloka að beita smáum kjarnorkusprengjum til að eyða þeim. Í gærkvöld vísaði Dan Bartlett, einn helsti ráðgjafi Bush Bandaríkjaforseta, ásökunum Hearsh um beitingu kjarnavopna algerlega á bug og sagði þær einkennast af rangfærslum og vanþekkingu. Bandaríkjastjórn muni hér eftir sem hingað til reyna að ná samkomulagi við Írana en náist engar sættir áskilji hún sér rétt til að beita hefðbundnum hernaðaraðgerðum gegn þeim. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag allar bollaleggingar um kjarnorkuárás á Íran vera hreint rugl og íranskur almenningur virðist sömuleiðis vantrúaður á slíkt.

Öruggt má telja að Bandaríkin myndu baka sér ævarandi fordæmingu fyrir að beita kjarnorkuvopnalausri þjóð slíkum vopnum. Þótt atómsprengjum yrði einungis varpað á hernaðarmannvirki myndi geislunin verða þúsundum borgara að fjörtjóni. Því eru líkurnar á slíkri árás mjög hverfandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×