Innlent

Fullt á fæðingardeildinni

MYND/E.Ól

Fullt er orðið bæði í Hreiðrinu og á sængurkvennadeild Landspítalans, tveimur dögum eftir að samningur ljósmæðra í heimaþjónustu og Tryggingastofnunar rann út. Deildarstjórar sjá fram á að þurfa að þrengja að nýbökuðum mæðrum og kalla út aukamannskap í dag eða kvöld verði ekki samið í kjaradeilunni.

Samningaviðræður ljósmæðra og samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins um nýjan taxta fyrir þær ljósmæður sem vitja sængurkvenna á heimilum þeirra hafa enn ekki skilað árangri, en nú eru rúmir tveir sólarhringar síðan ljósmæður hættu að sinna heimaþjónustu. Það þýðir að fleiri sængurkonur dvelja lengur á sjúkrahúsi en ella og þá eru þau rúm sem fyrir hendi eru á fæðingardeildinni fljót að fyllast.

Í Hreiðrinu er pláss fyrir átta konur og eru þau nú full og líkleg til að verða það áfram í dag. Þar er búist við að koma þurfi tveimur konum fyrir í einbýli vegna fjöldans og þá fá feður ekki að gista í herbergjunum.

Sama má segja um sængukvennadeildina en þar er legið í nítján rúmum. Um átta börn fæðast á sólarhring á Landspítalanum og Rannveig Rúnarsdóttir, deildarstjóri sængurkvennadeildar, sér fram á nú þurfi að þrengja að nýbökuðum mæðrum. Hún segir að starfsmenn anni stöðunni eins og hún sé en ef fleiri konur komi inn til að eiga þurfi að kalla fleiri á vakt.

Rannveig segir aðspurð að þrengra verði um konur ef fram fari sem horfi því þremur konum verði komið fyrir í tveggja manna herbergjum og sex í fjögurra manna. Aðspurð segir hún erfitt að spá um hvenær til þessa komi. Nú sé konur upp í fæðingu og hún geri ráð fyrir að undir kvöld verði orðið yfirfullt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×