Rafa Benitez, stjóri Liverpool er mjög ósáttur við misræmi í dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni og segir að ef svo fari sem horfi, muni bestu leikmenn úrvalsdeildarinnar missa af HM í sumar vegna meiðsla eftir þær hörðu tæklingar sem dómarar séu farnir að horfa framhjá.
Benitez segir lítið vit í því að markvörður sinn hafi fengið þriggja leikja bann vegna leikhæfileika Arjen Robben í leik Liverpool og Chelsea á dögunum, en á meðan sé ekkert gert í grófum tæklingum sem til dæmis sáust í úrvalsdeildinni um helgina.
"Við verðum að reyna að vernda þá hæfileikaríku knattspyrnumenn sem spila í þessari deild okkar og gefa fleiri gul spjöld til að sporna við þessum skelfilegu tæklingum. Allir vilja jú hafa sína bestu menn heila á HM í sumar, en ef svo fer sem horfir verða þeir allir meiddir þegar að mótinu kemur," sagði Benitez.