Lífið

Nýtt tímarit um Reykjavík

Carmen Jóhannsdóttir og Erla Gísladóttir. Ritstjórn getrvk.com ætlar að þefa uppi skemmtilegustu viðburðina í borginni.
Carmen Jóhannsdóttir og Erla Gísladóttir. Ritstjórn getrvk.com ætlar að þefa uppi skemmtilegustu viðburðina í borginni. MYND/Heiða

Nýtt veftímarit að nafni getrvk.com fer í loftið í dag, en það mun vera fyrsta veftímaritið með þessu sniði hér á landi. „Þetta er fimm manna hópur sem mun leita uppi bestu viðburðina af því sem er í gangi hverju sinni.

Við viljum finna það besta sem er í boði og mæla með því fyrir lesendur,“ sagði Carmen Jóhannsdóttir, ritstjóri getrvk.com. „Þetta er svona „event“-blað, við mælum með tónleikum, plötusnúðum, veitingastöðum og öllu sem okkur finnst flott,“ sagði hún.

Á heimasíðunni getrvk.com geta áhugasamir skráð sig á póstlista til þess að fá blaðið í pósthólfin sín á hálfsmánaðar fresti. „Þetta er alveg eins og að fá blað inn um lúguna, nema að það berst á netfangið,“ útskýrði Carmen. „Fólk flettir því meira að segja frá vinstri til hægri.“ Blaðið mun innihalda ýmiss konar umfjallanir og viðtöl. „Það verður líka svolítið alþjóðlegt af því að allt er skrifað á ensku,“ útskýrði Carmen.

Þrátt fyrir að mörg blöð birti viðburðaskrár á síðum sínum er Carmen þess fullviss að getrvk.com eigi fullt erindi við fólk. „Það er til fullt af bleðlum og ókeypis miðlum í borginni, en það eru mest allt prentuð blöð. Þetta hefur ekki verið gert áður og okkur fannst kominn tími til. Svona fær fólk þetta alveg upp í hendurnar,“ sagði hún.

Hópurinn að baki getrvk.com stendur fyrir útgáfupartíi á Rex í kvöld. „Allir sem hafa aldur til eru velkomnir,“ sagði Carmen hlæjandi. „Fólki mun líka gefast kostur á að skrá sig á póstlistann,“ bætti hún við, en með í för verða tveir plötusnúðar frá Barcelona. „Við ætlum að hafa alþjóðlega klúbbastemningu eftir miðnætti,“ sagði Carmen kát.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.