Tónlist

Einfalt og hrífandi gospel

Eiríkur, Páll Óskar og Margrét Eir
Eiríkur, Páll Óskar og Margrét Eir

Páll Óskar Hjálmtýsson, Eiríkur Hauksson og Margrét Eir syngja saman gospelsálma á nýrri plötu frá útgáfufyrirtækinu Frost sem nefnist Horfðu til himins.

Sinfóníuhljómsveitin í Bratislava leikur undir á plötunni ásamt Stjörnukór og mörgum af fremstu tónlistarmönnum Íslands. Mikið var lagt í útsetningar og textagerð og eru mörg laganna nú sungin í fyrsta sinn á íslensku.

Eiríkur Hauksson segist aldrei hafa sungið gospeltónlist áður en komist nálægt því í Noregi fyrir nokkrum árum. „Það var í nostalgíubandi sem heitir Aunt Mary þar sem ég spilaði á bassa og söng um tveggja ára skeið. Við héldum síðan tvenna stóra tónleika í samvinnu við norskan gospelkór," segir Eiríkur. „Ég hef alltaf voðalega gaman af að prófa eitthvað nýtt og þetta hljómaði vel, gospelfílingur með sinfóníuhljómsveit.

Ég hef um árin haft gaman af gospeltónlist en kannski mest í gegnum kvikmyndir. Það sem hrífur mig mest er það sama og með blúsinn, sem er einfaldleikinn. Hljómalega séð er þetta einfaldara og textarnir eru auðskildir og mikið um endurtekningar," segir Eiríkur, sem tók strax þá ákvörðun að láta laglínurnar ráða ferðinni í söng sínum í stað þess að reyna að krydda þær mikið.

Auk erlendra laga á borð við Amazing Grace, Go Down Moses og Swing Low eru tvö íslensk lög á plötunni. Lagið Horfðu til himins (Ný dönsk) og Við freistingum gæt þín. Íslenskir textar hafa verið gerðir við erlendu lögin á plötunni en til verksins voru fengnir margir af fremstu textahöfundum þjóðarinnar. Útgáfu þessa vandaða verks verður fylgt eftir með tónleikum í Grafarvogskirkju 12. desember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×