Erlent

Samið um þingkosningar í Líbanon

Forseti Líbanons, Emile Lahoud, samþykkti í dag tillögu ríkisstjórnarinnar um að halda þingkosningar í landinu á tímabilinu 29. maí til 19. júní. Um leið hvatti hann þingið til að breyta umdeildum kosningalögum til þess að reyna að lægja óánægjuöldurnar í landinu. Sýrlendingar hafa haft ítök í stjórn landsins síðustu ár en í kjölfar þess að fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Rafiq Hariri, sem ekki var hallur undir Sýrlendinga, var myrtur í febrúar greip um sig mikil reiði í Líbanon sem leiddi á endanum til afsagnar ríkisstjórnarinnar. Í kjölfarið var samið um brottflutning sýrlenskra her- og leyniþjónustumanna frá Líbanon og sagt að ekki yrði kosið í landinu fyrr en þeir færu. Þeir síðustu fóru í síðustu viku og nú hefur verið samþykkt að kosið verði á tímabilinu 29. maí til 19. júní í landinu. Lahoud forseti mælist til þess að kosningalögum verði breytt, en kjördæmaskipan þykir bandamönnum Sýrlendinga mjög í hag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×