Lífið

Konungsfjölskyldan dýr í rekstri

Breska konungsfjölskyldan kostaði skattgreiðendur tæplega 37 sjö milljónir punda, jafnvirði 4,5 milljarða íslenskra króna, á árinu 2004. Prinsarnir Karl og Andrés eru gagnrýndir fyrir að vera eyðsluklær. Kostnaður vegna eyðslu bresku konungsfjölskyldunnar í fyrra er rúmlega tveimur prósentum minni en hann var árið 2003 en þá hljóðaði hann upp á tæplega 36 milljónir punda, eða 4,2 milljarða íslenskra króna. Kostnaður við rekstur konungsfjölskyldunnar var gerður opinber í morgun þegar Elísabet drottning gaf út árlegar tölur vegna eyðslu fjölskyldunnar. Spurningar hafa vaknað vegna gríðarlegra fjármuna sem Elísabet og ættingjar hennar verja til ferðalaga í flugvélum og þyrlum. Þannig nam kostnaður vegna opinberrar heimsóknar Karls prins, sonar Elísabetar, til Srí Lanka, Ástralíu og Fídjieyja jafnvirði nærri 40 milljóna íslenskra króna en sérstök vél var leigð til ferðalagsins. Samkvæmt tölum Buckingham-hallar kostaði ferðalag Andrésar prins til Austurlanda fjær til að kynna Bretland 125 þúsund pund, eða 17 milljónir króna. Andrés, sem er næstelsti sonur drottningar, þykir ein mesta eyðslusklóin en hann krefst þess yfirleitt að ferðast með þyrlum fremur en járnbrautarlestum. Það kostaði skattgreiðendur til að mynda 325 þúsund pund, eða 40 milljónir króna, að flytja hann í þyrlu á milli staða í fyrra en hann taldi sig ekki geta stólað á bresku járnbrautirnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.