Innlent

Eitraður olíureykur bærist frá Örfirisey

Við slökkvistörf í Bretlandi. Slökkviliðsmenn börðust enn við elda í Buncefield olíubirgðastöðinni í London í gær og reyndu að kæfa eldana með sérstakri froðu. Hérlendis á fyrirtækið Olíudreifing mestar froðubirgðir og kom sér nýverið upp færanlegum slökkvibúnaði.
Við slökkvistörf í Bretlandi. Slökkviliðsmenn börðust enn við elda í Buncefield olíubirgðastöðinni í London í gær og reyndu að kæfa eldana með sérstakri froðu. Hérlendis á fyrirtækið Olíudreifing mestar froðubirgðir og kom sér nýverið upp færanlegum slökkvibúnaði.

"Þetta slys í Bret­landi er alveg með ólík­ind­um," segir Björn Karlsson bruna­mála­stjóri um brun­ann í Buncefield olíubirgðastöðinni í Lond­on um helg­ina. "En alls staðar er áhætta og erfitt að girða algjörlega fyrir möguleikann á stórslysi."

Björn segir að í vor og næsta sumar verði farið í sérstakt átak tengt öllum 30 olíubirgðastöðum landsins, þær heimsóttar og æfð viðbrögð við eldsvoða. Þetta er gert í samvinnu Brunamálastofnunar og Olíudreifingar sem komið hefur sér upp færanlegum slökkvibúnaði en stærstu stöðvarnar hafa sínar eigin froðubirgðir. Í Örfirisey í Reykjavík eru Olíudreifing og Skeljungur með birgðastöð en þar segir Björn unnið eftir ítrustu viðbragðsáætlunum og uppfyllt skilyrði svokallaðrar Cevezo-Evróputilskipunar um hættumat í iðnaðarstarfsemi.

"Reglugerðin hér kallar á að gert sé stefnumarkandi skjal með viðbragðsáætlun vegna óhapps, en hún er síðan kynnt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og það fer reglulega út í Örfirisey og æfir með Olíudreifingu hluta viðbragðsáætlunarinnar." Björn segir að nákvæm áhættugreining vegna olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey hafi ekki farið fram. Þá væri reiknað út mögulegt tjón í verstu brunatilvikum eða hversu margir gætu mögulega skaðast. Hann segir þó ljóst að kæmi upp eldur í óhagstæðri vindátt færi svartur olíureykur yfir nálæga byggð.

"Til dæmis hefði mest hætta myndast við Hringrásarbrunann ef vindur hefði staðið á Hrafnistu. En í slæmri vindátt gæti eitraður reykur farið yfir stórt svæði sem yrði að rýma í miðbæ Reykjavíkur." Gestur Guðjónsson, yfirmaður öryggismála hjá Olíudreifingu, segir brunann í Bretlandi vera áminningu. "Við erum ekki síður útbúin en Bretarnir voru og betur ef eitthvað er. Svo erum við með föst slökkvikerfi á geymunum" segir hann, en kveðst vitanlega bíða eftir nánari upplýsingum um hvað olli brunanum í Buncefield. "Sprenging eins og þarna varð finnst mér með ólíkindum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×