Innlent

Fáskrúðsfjarðargöng opnuð

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnaði jarðgöng undir Kollufjall við hátíðlega athöfn klukkan fjögur í dag. Göngin stytta leiðina milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar um 31 kílómetra en þau eru tæplega sex kílómetra löng. Áætlaður kostnaður við gerð ganganna er um fjórir milljarðar króna. Heildarverktími ganganna er tæplega tvö og hálf ár. Með tilkomu þeirra er búið að ryðja úr vegi einum erfiðasta og hættulegasta kafla Suðurfjarðarvegar. Hátt í 300 manns tóku þátt í Gangahlaupi sem ungmennafélögin Leiknir og Valur stóðu fyrir í gærkvöldi, í tilefni af opnun ganganna, en hlaupið var frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar. Segir á vef Austurbyggðar að einn hundur hafi tekið þátt og líklegt sé að hann verði eini ferfætlingurinn sem hlotnast sá heiður að fara göngin á fjórum jafnfljótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×