Innlent

Skemmdir unnar á minningargarði

Á vef Bæjarins besta á Ísafirði kemur fram að skemmdir hafi verið unnar á minningargarði um þá sem létust í snjóflóðinu á Flateyri. Bíl var ekið inn í hann aðfaranótt sunnudags með þeim afleiðingum að djúp hjólför mynduðust. Um spellvirki er að ræða og hefur það verið kært til lögreglu. Garðurinn hefur verið nokkurskonar samfélagsverkefni Flateyringa sem hafa unnið að uppbyggingu garðsins síðustu ár og notið dyggs stuðnings sjálfboðaliða og ýmissa sem hafa veitt verkefninu fjárhagslegan stuðning. Í sumar voru hópar sjálfboðaliða að störfum og tókst þannig að ljúka lokaáfanganum. Sigrún Gerða Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur er ein þeirra sem hafa staðið fyrir uppbyggingu garðsins, segir tjónið mikið og það kosti bæði tíma og peninga að bæta. Ekið var inn á svæði þar sem búið var að slétta jarðveg og sá í og líka keyrt inn á nýlagða stétt. Gróður hafi skemmst auk þess sem þurfi að fara með tæki inn í garðinn til að jafna út jarðveginn og sá í á ný. Jarðvegurinn er blautur og því verður erfitt að fara með vinnuvél inn í garðinn en Sigrún vonar að veðurguðirnir verði þeim hliðhollir. „Það kemur manni í opna skjöldu að nokkur skuli leyfa sér að keyra inn á svæði sem búið er að vinna í mörg ár. Starfið í garðinum hefur ekki farið fram hjá nokkrum bæjarbúa og ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður hafi ætlað að þyrfti að girða hann af. Það er mat okkar að við verðum að laga þetta sem fyrst annars verður sárið svo yfirþyrmandi ljótt. Þegar er búið að fá mann á jarðýtu að koma og slétta þetta. Nú verðum við bara að sæta lagi með veður“, sagði Sigrún Gerða. Þeim sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar um verknaðinn er bent á að hafa samband við lögregluna á Ísafirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×